Morgunverður meistara: Oddur af oflæti brotinn

Friday, September 7, 2007

Oddur af oflæti brotinn

Bloggari? Ég??? Það er eitthvað sem sjálfumglaðir uppskafningar dunda sér við á meðan við hin erum að vinna eða sinna þarfari hlutum. Helteknir af eigin egói, bíðandi, vonandi að einhver af (blog) vinum þeirra kommenti á snilldina. Berandi á borð almennings sína aumu tilbreytingarlausu og litlausu tilveru eða kaldhæðast að fréttum af fræga fólkinu. Einkennilegt og smáborgaralegt afbrigði af sýniþörf. Allir eru í þessu rugli. Nema ég. Ef allir eru upptekknir við að skrifa sína blogsíðu eða ákveða hvað þeir ætli að skrifa næst, hver hefur þá tíma til að lesa blog annara? Hver les annars blog og til hvers? Sýniþörf og hnýsiþörf? Eða bara einkamiðill? Eða bara sniðugt dót? Þannig er þetta hjá mér. Þökk sé nýja símanum mínum (sem setti sjálfvirkt upp blogsíðu um leið og ég tók mynd) er ég sem sagt kominn með blog. Fyrst og fremst til að vista og geyma myndir af mér og mínum...en líklega læðast einhver þankastrik með annað slagið. Bakþankar. Þá er ég orðinn einn af "þeim". Bloggari með bakpoka. Ætli bakpokaferðalangar séu ekki líka með bakþanka?

No comments: